
Fréttabréf Lundarskóla
September 2023
Skipulag í september
Skólastarfið hefur farið vel af stað og allt skipulag að verða gott. Við höfum mannað allar stöður í skólanum. Nýr kennari, Heiðbjört Ósk kom til starfa mánudaginn 28. ágúst og svo munu tveir starfsmenn bætast við þann 1. október. Það eru Karina Hurtabo sem tekur við starfi Marinu skólaliða á B gangi uppi (Marina hætti óvænt) og Sigrún María Bjarnadóttir kennari kemur í ISAT kennslu þar sem við erum með marga ISAT nemendur og það á eftir að bætast við í þann hóp. Þess má geta að Karina er konan hans Víkings og Sigrún María er móðir Einars Árna stuðningsfulltrúa í 6.bekk og hún á einnig Arnar Gauta Gíslason nemanda í 5.bekk. Við tökum vel á móti þessum starfsmönnum þann 1. október.
Það má með sanni segja að Lundarskóli sé vel mannaður með frábæran starsmannahóp.
Hér í viðhengi má svo sjá skipulag funda í september.
Dagur læsis 8. september
Í tilefni Dags læsis, föstudaginn 8. september, verður sameiginleg lestrarstund í öllum skólanum. Hún fer þannig fram að fyrir kl. 8:30 verða allir sem starfa eða nema við skólann búnir að koma sér fyrir með sitt lesefni (bækur eða blöð) þar sem þeir lesa. Nemendur í sérgreinum eiga að hafa með sér yndislestrarbækur þangað nema þeir sem eru í íþróttum og sundi, þar bjóða kennarar upp á sérstakt lesefni eftir því sem hentar. Sérgreinakennarar þurfa að hafa hjá sér blöð og bækur til að bjóða uppá ef yndislestrarbækur klárast því ekki er í boði að nemendur fari á skólasafnið til að ná í nýjar.
Klukkan 8:30 hefst lestrarstundin og þá er lesið í 20 mínútur.
Það væri gaman að bjóða nemendum upp á að lesa ekki bara í sinni stofu, heldur líka á göngum en kennarar á sama gangi þurfa að hafa samráð sín á milli þar að lútandi svo allt fari nú ekki í hönk.
Á meðan á þessari lestrarstund stendur á enginn umgangur að vera um skólann.
Göngum í skólann
Íþrótta og Ólympíusamband Íslands setur af stað verkefnið Göngum í skólann verkefnið miðvikudaginn 6. september næstkomandi og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 4. október.
Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni sína til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Hér er hlekkur á heimasíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is
Við hvetjum kennara í öllum áröngum til að kynna verkefnið og taka þátt með nemendum skólans og skrá þátttöku.
Við tökum a.m.k. öll þátt í alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 4. október 🚶♀️🚶
Göngudagur 13. september
Samkvæmt skóladagatali verður göngudagur í Lundarskóla miðvikudaginn 13. september. Nemendur fara í ólíkar gönguferðir í samræmi við aldur, hæfni og getu. Gönguferðirnar verða þyngri og lengri eftir því sem nemendur eldast.
Á unglingastigi verður boðið upp á þrjár ólíkar göngur og m.a. verður gengið upp að Skólavörðu. Þeir nemendur og starfsmenn sem fara þangað fara með rútu frá Lundarskóla að upphafsstað og verða sóttir aftur skv. skipulagi. Það verður ein rútuferð aftur að Lundarskóla eftir gönguna en ef nemendur verða sérstaklega fljótir eða lengi að ganga leiðina og sjá sér ekki fært um að taka rútuna á tilteknum tíma þá þurfa foreldrar/forráðamenn að sækja nemendur á endastöð þegar þeir ljúka sinni göngu.
Gott er þá að sameinast í bíla ef nemendur verða sóttir. Þeir starfsmenn sem ekki ná rútunni verða sóttir skv. samkomulagi.
Umsjónarkennarar senda nánari upplýsingar heim til foreldra þegar nær dregur varðandi skipulagið hjá hverjum árgangi fyrir sig.
Mikilvægt er að nemendur komi klæddir eftir veðri og í góðum skóm.
Hér er má sjá heildarskipulagið á göngudeginum. Þess má geta að það er lifandi skjal í vinnslu.
Upplýsingar um innra mat - Gæðaráð
Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er gerð krafa um innra mat og eftirlit með skólastarfi. Í Lundarskóla er starfrækt Gæðaráð Lundarskóla sem heldur utan um innra mat skólans og tekur þátt í framkvæmd mats í samstarfi við alla þá sem koma að skólastarfinu. Innra mat er drifkraftur þróunar og breytinga í átt að gæðastarfi í skólanum og því er ætlað að vera markvisst og samofið skólastarfinu. Lögð er áhersla á virka þátttöku starfsfólks, nemenda og foreldra.
Megin tilgangur innra mats er að:
- Að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skólans, foreldra og nemenda
- Að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla
- Að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum
- Að tryggja að réttindi og skyldur í skólastarfi samkvæmt lögum og reglum í þágu nemenda
Í Gæðaráði Lundarskóla eru:
Arna Heiðmar Guðmundsdóttir, kennari, Fjóla Dögg Gunnarsdóttir, deildarstjóri, Helga Rún Traustadóttir, deildarstjóri, Jónína Vilborg Karlsdóttir, kennari og Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri
Haustkynningar
Nú styttist í haustkynningar fyrir foreldra. Umsjónarkennarar halda fundina og skipuleggja þá fyrir sinn árgang. Einnig geta teymin samræmt sig varðandi skipulagið.
Umsjónarkennarar finna fundartíma og halda haustkynningarfund fyrir 8. október.
Mikilvægt er að fá bekkjarfulltrúa í alla árgnga og eftir fundinn þarf að senda upplýsingar til stjórnenda um bekkjarfulltrúana.
Eftirfarandi þættir þurfa að fara inn á skipulagið.
- Fá bekkjarfulltrúa 2-4 úr hverjum árgangi
- Kynna námslotur/skipulag á námi og námsmati vetrarins og Mentor
- Fara yfir skóladagatal, helstu viðburði
- Minna á heimasíðu/facebook síðu skólans
- Aðrar upplýsingar frá umsjónarkennurum
Skólahlaup 29. september
Ólympíuhlaup ÍSÍ áður norræna skólahlaupið verður haldið föstudaginn 29. september 2023. Nemendur safnast saman við aðalinngang Lundarskóla, hlaupið verður ræst af stað kl. 08:30. Hlaupinu lýkur kl. 09:30. Nemendur hafa val um að hlaupa/ganga 1-3 hringi en hver hringur er 3 km. Nemendur geta ekki lagt af stað í nýjan hring eftir kl. 09:10.
Hér má sjá hringinn sem nemendur hlaupa en hann er merktur með svörtum lit.
Kær kveðja, Maríanna, Fjóla Dögg og Helga Rún