
Fréttamolar úr MS
9. janúar 2024
Gleðilegt nýtt ár!
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á því liðna. Nú er skólastarfið komið á fullt eftir gott jólafrí. Miðannarmatið birtist nemendum fimmtudaginn 11. janúar kl. 20 og það gefur vísbendingar um stöðu ykkar í áföngum. Mikilvægt er að taka miðannarmatið alvarlega og skoða leiðir til úrbóta þar sem þörf er á, seinni hluti annarinnar er eftir og þá getur ýmislegt gerst og um að gera að nýta tímann vel.
Nýtt ár fer vel af stað með spennandi félagslífi - keppnirnar Gettu betur, Morfís, Frís eru að hefjast, leikfélagið Thalía undirbýr sýningu og söngvakeppnin Baulan er á næsta leyti.
Dagsetningar framundan
10. janúar: Lið MS keppir við Tækniskólann í 1. umferð Gettu betur í útvarpinu kl. 18:00
11. janúar: Miðannarmat birtist í Innu
17. janúar: Íslenska æskulýðsrannsóknin lögð fyrir alla nemendur skólans að beiðni Menntavísindastofnunar (sjá nánar hér að neðan).
Leikfélagið Thalía 🎭
Leikfélagið Thalía vinnur að uppsetningu á Grease með vorinu og leitar að nemendum sem hafa áhuga á að taka þátt í ýmsum verkefnum, sjá nánar á Instagram síðu leikfélagsins.
Baulan 2024 🎤
Baulan er söngvakeppni sem haldin er árlega af SMS. Þar stíga á svið fjölmargir hæfileikaríkir nemendur, veitt verða verðalaun fyrir skemmtilegasta atriðið og einnig verður einn sigurvegari sem keppir svo fyrir hönd MS í söngvakeppni framhaldsskólanna. Mikið er lagt í Bauluna og vonandi mæta sem flestir og fylgjast með. Söngelskir nemendur MS eru hvattir til að skrá sig!
MS keppir í Gettu betur
Lið MS í Gettu betur keppir við lið Tækniskólans í útvarpinu kl. 18 á miðvikudag og eru öll hvött til að mæta í Útvarpshúsið Efstaleiti og styðja liðið. Í liðinu fyrir hönd MS eru Darri Þór, Emma Elísa og Sigurjón Nói og óskum við þeim góðs gengis.
Íslenska æskulýðsrannsóknin
Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er lögð fyrir framhaldsskólanemendur um allt land. Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir rannsóknina fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Tilgangur könnunarinnar er að safna gögnum um sýn framhaldsskólanemenda á ýmsa þætti sem snúa að velferð þeirra eins og skólastarfi, íþrótta- og tómstundaiðkun, heilbrigði og líðan. Niðurstöður könnunar eru eftir úrvinnslu birtar í landsskýrslu á vefsíðu rannsóknarinnar https://iae.is
Niðurstöður eru ópersónugreinanlegar. Þátttaka er valkvæð og getur þú eða foreldrar/forsjáraðilar nemenda undir 18 ára aldri hafnað þátttöku. Nemendum sem taka þátt er einnig frjálst að sleppa spurningum sem þeir vilja ekki svara og hætta þátttöku hvenær sem er í fyrirlögn.
Við hvetjum þig þó til að taka þátt þar sem niðurstöður gefa stjórnvöldum mikilvægar vísbendingar um velferð ungs fólks og hvaða stuðning er mikilvægt að veita ungu fólki og fjölskyldum þeirra.
Könnunin verður lögð fyrir á rafrænu formi á skólatíma þann 17. janúar í kennslustund. Nánari upplýsingar berast í tölvupóst á næstu dögum.
FRÍS 🎮
FRÍS - Rafíþróttakeppni framhaldsskólanna, hefst nú í janúar. Það vantar enn keppendur í Counter Strike, en að auki verður keppt í Valorant og Rocekt League. Hægt verður að sækja um einingar fyrir þátttöku í keppninni. Ef þú hefur áhuga, hafðu þá samband við Guðnýju félagsmálastjóra í Viskusteini eða á felagsmalastjori@msund.is fyrir kl. 12 á fimmtudag, en þá verður fyrsti fundur liðsins.